Íslenski boltinn

Tekur atvinnuleysið fram yfir FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Allan Dyring fyrrum leikmaður FH.
Allan Dyring fyrrum leikmaður FH. Mynd/E. Stefán

Danski framherjinn Allan Dyring hefur samið um starfslok við knattspyrnudeild FH. Hann staðfesti það í samtali við Vísi og hefur hug á því að leika áfram á Íslandi.

"Ég er auðvitað ánægður með að fara frá félaginu þar sem ég fékk ekkert að spila. Auðvitað vonaðist ég samt til þess en þetta var besta lausnin úr því sem komið var," sagði Allan.

Hann kom inn á sem varamaður í fjórum leikjum í deildinni í sumar og spilaði samtals í 43 mínútur. Í fyrra skoraði hann fjögur mörk í fjórtán leikjum. Alls á hann að baki 21 leik fyrir FH.

Dyring var fenginn til félagsins til að leysa nafna sinn Borgvardt af hólmi. Hann hefur ekki þótt standa fyrir væntingum og hefur ekki verið í leikmannahópi FH í tvo mánuði.

Hann getur ekki spilað með öðru félagi fyrr en á næsta tímabili. "Svona er fótboltinn bara. Það er þó betra að vera atvinnulaus í einhvern tíma en að halda áfram með FH," sagði Dyring sem er nú að leita sér að nýju félagi ásamt Guðlaugi Tómassyni, umboðsmanni sínum.

"Þetta tekur tíma en við erum að vinna í þessum málum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×