Innlent

Mótmæla verðkönnun ASÍ

Forsvarsmenn Krónunnar og Bónuss mótmæla harðlega verðkönnun ASÍ og segja hana í engu samræmi við raunverulegt verðlag á mat-og drykkjarvöru vegna verðstríðs á gosi sem stóð yfir í mars og apríl. ASÍ segir verðlækkanir engu að síður ekki skila sér til neytenda.

Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað verðbreytingar í lágvöruverslunum til að fylgjast með því hvernig lækkanir a virðisaukaskatti og vörugjöldum hafi skilað sér til neytenda. Helstu niðurstöðurnar úr verðmælingum í verslunum frá tímabilinu mars til maí eru að verð hækkar mest í verslunum Krónunnar eða um 4,6 % en lækkar lítillega í Nettó eða um 0,2 %. Ólafur Darri Andrason hagfræðingur ASÍ segir að á tímabilinu desember til maí hefði mat-og drykkjarvörur átt að lækka meira.

Þegar verðbreytingar eru kannaðar kemur í ljós að hækkunin er mest á gosi, söfum, og vatni í Bónus og Krónunni. Í Bónus hafa drykkirnir hækkað um rúm 13 % en í Krónunni um tæp 20 %. Forsvarsmenn Bónuss og Krónunnar segja að verðstríð á gosi hafi geysað í mars og apríl og því sýni könnunin ekki raunhæfa mynd af matvöruverði.

Og rekstrarstjóri Krónunnar tekur í sama streng og nefnir sem dæmi að verðið á tveggja lítra kókflösku hafi farið niður fyrir 70 krónur í báðum verslunum í mars og apríl síðastliðnum en verðið á flöskunni í dag er um 150 krónur. Í apríl hafi Krónan lækkað verðið á gosi og öðrum drykkjum um 26%.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×