Innlent

Bæta þjónustu við blinda og sjónskerta

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að bæta þjónustu við blinda og sjónskerta.
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að bæta þjónustu við blinda og sjónskerta. MYND/365

Menntamálaráðuneytið hefur ákveðið að setja á laggirnar sex nýjar kennslu- og þjónustustöður til að bæta úr brýnum skorti á þjónustu við blinda og sjónskerta. Tillaga þessa efnis var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Nú starfa einungis tveir starfsmenn á sviði blindrakennslu og þjónusta þeir um 1.500 manns. Fjórir verða sendir út í nám til að afla sér sérhæfingar.

Fram kemur í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu að fyrirsjáanlegt er að í haust verði einungis tveir starfsmenn á sviði blindrakennslu, kennsluráðgjafar og þjálfunar í umferli og athöfnum daglegs lífs til að aðstoða 1.500 manna hóp blindra og sjónskertra. Til að bregðast við þessum vanda hafi ráðuneytið því ákveðið að ráða í sex nýjar kennslu- og þjónustustöður og verða þær auglýstar á næstu dögum.

Um er ræða stöður þriggja blindrakennara og þrjár nýjar stöður umferlis- og ADL þjálfa. Þegar er ein slík staða til hjá Sjónstöðinni en ekki hefur tekist að manna hana vegna skorts á fagmenntuðu fólki hérlendis. Því munu fjórir einstaklingar verða ráðnir og þeir sendir strax í september í nám erlendis til að afla sér viðeigandi sérhæfingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×