Innlent

Biðjast afsökunar á rafmagnsleysi

Frá álveri Alcoa í Reyðarfirði
Frá álveri Alcoa í Reyðarfirði MYND/365

Alcoa Fjarðarál hefur sent út afsökunarbeiðni vegna rafmagnsleysis sem varð á Austurlandi í gær vegna prófana á tæknibúnaði fyrirtækisins. Samkvæmt yfirlýsingunni vinna sérfræðingar fyrirtækisins nú í samvinnu við Landsnet að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig. Rafmagn fór af álverinu og af stórum hluta Austurlands í um tvo klukkutíma síðdegis í gær.

Í yfirlýsingu Alcoa Fjarðaráls kemur fram að rafmagn hafi farið af álverinu þegar verið var að prófa tæknibúnað sem tengist háspennuvirki. Fyrirtækið fær nú rafmagn frá landsnetinu þar sem Kárahnjúkavirkjun er ekki komin í gang. Þar af leiðandi er verið að keyra álverið tímabundið á veikari neti en ella.

Þá segir ennfremur í yfirlýsingunni að sérfræðingar fyrirtækisins vinni nú í samvinnu við Landsnet að rannsaka nákvæmlega hvað hafi gerst og hvernig unnt sé að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Álver Alcoa Fjarðaráls varð rafmagnslaust milli klukkan fimm og sjö síðdegis í gær. Í kjölfarið fór rafmagn af stórum hluta Austurlands. Óstöðugleiki komst á ker álversins við rafmagnsleysið í gær en ekkert tjón varð vegna bilunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×