Lífið

Ólögleg Siv er ekkert sár

Siv Friðleifsdóttir er skírð upp á norska vísu og er rífandi stolt af nafni sínu.
Siv Friðleifsdóttir er skírð upp á norska vísu og er rífandi stolt af nafni sínu.

„Ég er rífandi stolt af nafni mínu, er fædd og skírð upp á norska vísu í Nordstrandkyrkje," segir Björg Siv Juhlin Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þegar hún er spurð um nýlegan úrskurð mannanafnanefndar um að nafnið Siv samræmist ekki íslenskri hefð. „Ég fæ vonandi að komast aftur inn í landið," bætti Siv við en ráðherra var staddur í Brussel þegar Fréttablaðið ræddi við hana.

Mannanafnanefnd hefur úrskurðað að nafnið Siv samræmist ekki íslenskri hefð en þó nokkrir hafa sótt um að fá að skíra stúlkubörn sín þessu nafni. Ekki voru gerðar neinar athugasemdir við nöfnin Eufemía, Róbjörg, Líba og Marit og þá eru nöfnin Jeanne og Íssól til skoðunar. En ljóst er að sannkristnir framsóknarmenn geta ekki nefnt börn sín eftir ráðherranum. Samkvæmt Hagstofu bera fimm konur nafnið Siv sem eiginnafn og fjórar sem millinafn.

„Ég gæti náttúrlega laumast inn með nafnið Björg sem er gott og gilt íslenskt nafn," hvíslar ráðherra sem er ekki að fetta fingur út í mannanafnanefndina umdeildu og segir hana bara vera að vinna sitt verk. „Þeir eru að huga að íslenskunni og vernda hana eftir bestu getu. Og þessi nefnd er ekki úrelt fyrirbæri," segir Siv. „Þrátt fyrir þennan úrskurð," bætir hún við og tekur þetta augljóslega ekki nærri sér.

Nafnið Siv með v-i er komið úr norrænni goðafræði og hét meðal annars kona Þórs þessu nafni. „Ég hef sjálf beygt þetta eftir íslenskum reglum en séð ýmislegt skrautlegt þegar kemur að notkun þess. Sumir hafa skrifað Svif eða jafnvel Svið," segir Sif og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.