Íslenski boltinn

Heimir: Vorum áhugalausir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Guðjónsson er hér lengst til hægri á myndinni.
Heimir Guðjónsson er hér lengst til hægri á myndinni. Mynd/Anton

Heimir Guðjónsson, aðstoðarþjálfari FH, sagði að sínir menn hefðu virkað áhugalausir gegn Val í dag.

Valur vann FH, 2-0, og komu sér þannig á topp Landsbankadeildar karla þegar ein umferð er eftir af mótinu.

"Þetta var sanngjarnt," sagði Heimir. "Valsmenn vildu þetta meira og mér fannst við vera áhugalausir. Við mættum ekki með þá baráttu til leiks sem þurfti til og þar fyrir utan spiluðum við engan fótbolta."

Hann segir að ekkert hafi þýtt að beita löngum og háum sendingum. "Það þýðir ekkert gegn varnarmönnum eins og Atla Sveini og Barry Smith. Maður hlýtur að spyrja sig af hverju menn sýndu ekki meiri vilja til að vinnan þenna leik. Síðustu ár, þegar við höfum lent í álíka leikjum, hafa menn mætt til leiks með hausinn og hugarfarið í lagi. Það var ekki þannig í dag."

Heimir er þó ekki búinn að afskrifa Íslandsmeistaratitilinn. "Þetta er ekkert búið fyrr en eftir síðasta leik. En við erum komnir í vandamál því við höfum aldrei þurft að treysta á aðra. Það kann aldrei góðri lukku að stýra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×