Steve McClaren, landsliðsþjálfari Englands, segist búast við því að liðið komist í úrslitakeppni EM í Austurríki og Sviss á næsta ári þó svo að útlitið sé dökkt.
Ef Rússland vinnur bæði Ísrael og Andorra á næstu dögum og Króatía nær stigi gegn annað hvort Makedóníu á morgun eða gegn Englandi á miðvikudag er ljóst að enska landsliðið missir af sínu fyrsta stórmóti síðan það komst ekki á HM í Bandaríkjunum árið 1994.
„Ég býst fastlega við því að komast áfram,“ sagði McClaren en England mætir Austurríki í vináttulandsleik í kvöld klukkan 19.00. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Sýn.
„Það er enn langt í land og gæti mikið gerst þangað til,“ sagði McClaren.
Rússland mætir Ísrael á útivelli á morgun og er það lykilleikurinn fyrir Englendinga.
Ef liðin skilja jöfn þarf England að vinna Króatíu á miðvikudaginn næsta.
Ef Rússland tapar fyrir Ísrael dugir Englandi jafntefli gegn Króatíu.
„Vonandi verða úrslitin á laugardaginn okkur hagstæð og við eigum enn möguleika á að komast áfram þegar við spilum við Króatíu,“ sagði McClaren.