Sir Bobby Robson sagði í gær að hann muni sennilega hætta í fótbolta vegna slæms heilsufars eftir leik Írlands og Wales á morgun.
Robson starfar nú sem ráðgjafi hjá írska knattspyrnusambandinu og hefur verið Steve Staunton innan handar í leikjum liðsins undir hans stjórn. Staunton hætti sem landsliðsþjálfari Íra í síðasta mánuði og segir Robson að leikurinn á morgun verði sá síðasti þar sem hann gegnir hlutverki á vellinum sjálfum eða hliðarlínunni.
„Þegar ég réði mig til starfa hjá írska knattspyrnusambandinu var ég í góðu líkamlegu ástandi. Ég vissi að ég gæti komið að mestu notum fyrir Staunton á hliðarlínunni en síðan þá hefur heilsufari mínu hrakað.“
Robson á að baki 57 ára feril bæði sem leikmaður og þjálfari og starfaði hann í Englandi, á Spáni, Portúgal og Hollandi og kom enska landsliðinu í undanúrslit HM á Ítalíu árið 1990.
Spurður um framtíðaráætlanir sínar sagði hann að það væri undir heilsufari hans komið. „Ég bý enn yfir áhuga og kunnáttu en líkur eru á því að ég muni aldrei starfa á hliðarlínunni aftur.“