Íslenski boltinn

Víðir svarar bréfi Blika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Víðir Sigurðsson, höfundur Íslenskrar knattspyrnu 2007.
Víðir Sigurðsson, höfundur Íslenskrar knattspyrnu 2007. Mynd/E. Stefán

Víðir Sigurðsson, höfundur bókarinnar Íslensk knattspyrna 2007, hefur svarað bréfi knattspyrnudeildar Breiðabliks frá því í gær.

Blikar gagnrýndu Víði fyrir að skrá að Magnús Páll Gunnarsson hafi skorað sjö mörk í sumar, en ekki átta eins og KSÍ gerði í sínum gagnagrunni.

Magnús Páll fékk bronsskóinn í haust en þrír leikmenn skoruðu átta mörk í sumar samkvæmt gögnum KSÍ.

Fréttatilkynning Víðis er eftirfarandi:

„Vegna bréfs sem knattspyrnudeild Breiðabliks sendi fjölmiðlum í gær, þar sem vinnubrögð mín vegna lýsingar á marki í leik Breiðabliks og FH í 16.

umferð Landsbankadeildar karla voru fordæmd, vil ég koma á framfæri eftirfarandi útskýringu sem er að finna í bókinni Íslensk knattspyrna 2007:

"Um árabil hefur Óskar Ó. Jónsson íþróttafréttamaður komið undirrituðum til aðstoðar með ákveðna þætti í bókinni, eins og lesendur eflaust þekkja. Þar er innifalin nákvæm skoðun hans á hverju einasta marki sem skorað er í efstu deild karla en Óskar fer yfir öll mörkin af myndböndum til að gulltryggja að rétt sé frá þeim sagt.

Í sumar var deilt um hvort skrá ætti mark sem Breiðablik skoraði gegn FH í 16. umferð sem sjálfsmark eða á leikmann Breiðabliks, Magnús Pál Gunnarsson. Dómari leiksins skráði það á Magnús sem þar með taldist vera með 8 mörk og rétthafi bronsskóarins. En nákvæm skoðun Óskars leiddi í ljós að útilokað er annað en að skrá markið sem sjálfsmark. Breyta þyrfti heildarmatinu á hvenær mark telst sjálfsmark og hvenær ekki til þess að hægt væri að skrá umrætt mark á Magnús Pál. Hann er því skráður með 7 mörk í bókinni."

Við þetta er því að bæta að umrætt mark var grandskoðað strax daginn eftir leikinn, sem fram fór 16. september, og þá þegar varð ljóst að ekki væri grundvöllur fyrir öðru en að skrá það sem sjálfsmark. Það fór ekkert á milli mála að varnarmaður FH sendi boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf frá hægri. Ítrekaðar skoðanir eftir það hafa engu breytt þar um.

Í ellefu ár hafa ofangreindar aðferðir verið notaðar til að lýsa öllum mörkum í deildinni af mestu mögulegu nákvæmni í bókunum Íslensk knattspyrna. Ef það stangast í einhverjum tilvikum á við hvernig þau eru skráð á leikskýrslur, verður svo að vera. Það er útilokað að lýsa atvikum öðruvísi en þau ber fyrir sjónir og ítrasta möguleg skoðun leiðir í ljós.

Það væru ekki fagleg vinnubrögð.

Víðir Sigurðsson

íþróttafréttamaður og höfundur bókarinnar Íslensk knattspyrna 2007."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×