Enski boltinn

Það á að taka menn eins og Diouf úr umferð

El Hadji Diouf, leikmaður Bolton
El Hadji Diouf, leikmaður Bolton NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum úrvalsdeildardómarinn Jeff Winter segir að enska knattspyrnusambandið ætti að breyta reglum sínum svo hægt sé að taka menn eins og El Hadji Diouf hjá Bolton úr umferð ef þeir gera sig sekir um hættulegar og glórulausar tæklingar.

Diouf vakti reiði stuðningsmanna Liverpool á sunnudaginn þegar hann fékk aðeins gult spjald fyrir grófa tæklingu sína á Alvaro Arbeloa. Aganefndin hefði geta refsað Diouf fyrir tæklinguna, en samkvæmt reglum getur hún ekki þyngt refsingu hans af því dómarinn sá atvikið og gaf Diouf gult spjald.

Jeff Winter segir í samtali við Sun að taka verði á svona ljótum brotum áður en einhver slasast alvarlega.

"Þetta endar með því að einhver fótbrotnar eða örkumlast fyrir lífstíð eftir tæklingu frá Diouf eða einhverjum öðrum og svona ruddaskap verður að eyða út úr boltanum. Ég vil ekki taka neitt frá ákafa leikmanna, en þetta eru líkamsárásir og það er sorglegt að aganefndin skuli ekki geta tekið á þessu. Diouf fékk t.a.m. bara gult spjald en hefði klárlega átt að fá rautt," sagði Winter, sem dæmdi sinn síðasta leik á Englandi þegar hann flautaði bikarúrslitaleikinn árið 2004.

"Það er ótækt að tæklingar eins og þessi hjá Diouf og tækling Stephen Hunt (hjá Reading á móti Manchester City vikuna áður) séu að eiga sér stað á vellinum og að mínu mati á að dæma svona menn í sex leikja bann -frekar en þriggja," sagði dómarinn fyrrverandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×