Innlent

Gríðarlegt tjón á Sauðárkróki þegar vatnsstokkur brast

Gríðarlegt tjón varð á húsum og bílum á Sauðárkróki í morgun þegar vatnstokkur í eigu RARIK gaf sig. Engin slys urðu á mönnum en tjónið nemur tugum milljóna króna.

Það var um klukkan níu í morgun sem vatnsstokkurinn gaf sig. Skömmu áður höfðu menn sem voru að störfum á svæðinu skorið í háspennulínu með þeim afleiðingum að rafmagn fór af bænum. Við það gerðist eitthvað í stöðvarhúsi Gönguskarðsárvirkjunar þannig að vatnsstokkurinn stíflaðist og sprakk.

Vatnsstokkurinn liggur frá Gönguskarðsárstíflu að stöðvarhúsinu og flytur vatn frá ánni í stöðvarhúsið. Það tók starfsmenn RARIK um 20 mínútur að gera við vatnsstokkinn og á meðan flæddi aur og drullu niður Nafirnar og á húsin í norður enda bæjarsins.

Eins og sjá má á myndum er tjónið af vatnselgnum gríðarlegt og hleypur á tugum milljóna. Að sögn Björns Steins Sveinssonar hjá lögreglunni á Sauðárkróki þá flokkast tjónið líklega ekki undir viðlagasjóð heldur mun rafmagnsveitan trúlega vera skaðabótaskyld. Engin slys urðu á mönnum en meðal þeirra húsa sem urðu verst úti er eitt frægasta hús bæjarins, Villa Nova.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×