Innlent

Eva Rut kasólétt og býr í tjaldi í Laugardal

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eva Rut hefur verið heimilislaus í tvo mánuði.
Eva Rut hefur verið heimilislaus í tvo mánuði. Mynd/ Stöð 2
Eva Rut Bragadóttir er ólétt og komin 34 vikur á leið. Hún er heimilislaus og býr í tjaldi í Laugadalnum. Stundum fær hún þó inni hjá Hjálpræðishernum. Eva Rut, sem er 24 ára og hefur neytt fíkniefna frá því að hún var 13 ára, óttast um fóstrið og segir félagsmálayfirvöld ekki hafa sinnt sér vegna sumarleyfa.

„Ég fæ oft samdráttarverki sem eru mjög óþægilegir, sérstaklega þegar ég ligg í tjaldinu. Ég á ekki í önnur hús að venda nema þegar ég kemst inn hjá Hjálpræðishernum. Ég óttast um fóstrið enda eru þetta ekki mannsæmandi aðstæður fyrir unga konu," segir Eva Rut sem von á sér í byrjun október. Hún heimsækir pabba sinn reglulega en hann getur ekki veitt henni varanlegt húsaskjól.

Hún ber félagsmálayfirvöldum ekki fagra söguna. „Ég hef verið í sambandi við fjölmarga félagsráðgjafa. Þjónustumiðstöðin í Breiðholti hafði lofað mér íbúð fyrir 3. ágúst en við það hefur ekki verið staðið. Svörin sem ég fæ eru að það séu allir í sumarfríi," segir Eva Rut, sem fékk ekki einu sinni að hitta félagsráðgjafann sinn þar sem hann var of upptekinn.

Ísland í dag ræddi við Evu Rut fyrir tveimur mánuðum. Þá hafði hún ekki borðað í einn og hálfan sólarhring og var á leiðinni á götuna. Hún hætti að neyta fíkniefna á tuttugustu viku meðgöngunnar en systir hennar, Theódóra Bragadóttir, óttast að hún geti misst fótanna á nýjan leik. „Hún er búin að standa sig eins og hetja, hefur farið í skoðanir hjá læknum og haldið sig frá fíkniefnum," segir Theódóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×