Innlent

Íslenska loftvarnakerfið undir það evrópska innan nokkurra vikna

Íslenska loftvarnarkerfið verður hluti þess evrópska innan fárra vikna. Íslendingar taka við rekstri fjögurra ratsjárstöðva sem því tengjast úr höndum Bandaríkjamanna í dag. NATO leggur mikla áherslu á að rekstri þess verði haldið áfram líkt og íslensk stjórnvöld hafa ákveðið.

Samkvæmt endurskoðuðu varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna var samningnum vegna loftvarnarkerfisins íslenska sagt upp frá og með deginum í dag. Það var ljóst í október í fyrra og þá urðu Íslendingar að ákveða hvort þeir vildu taka yfir kerfið eða ekki. Kerfið nemur merki frá flugvélum sem fara um lofthelgina og sendir merki til að finna vélar sem vilja ekki láta vita af sér.

Í dag er loftvarnarkerfi Bandaríkjamanna virkt og kerfi Atlantshafsbandalagsins. Á milli liggur svo íslenska kerfið.

Á fundi Atlantshafsbandalagsins í Riga í Lettlandi í nóvember í fyrra óskaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, eftir því að bandalagið tæki að sér eftirlit í íslenskri lofthelgi. Niðurstaða hermálanefndar og fastaráðs NATO var að það yrði að tryggja áfram rekstur loftvarnarkerfisins. Íslenska kerfið yrði að vera til staðar annars væri tómt mál að tala um loftvarnir.

Án þess opnast gat milli kerfa Bandaríkjamanna og Evrópubúa og þar hefðu vélar geta horfið með auðveldum hætti. Kerfið verður áfram rekið og innan fárra vikna verður það hluti þess evrópska. Atlantshafsbandalagið veitir aðstoð vegna viðhalds á mannvirkjum og búnaði og við þjálfun Íslendinga vegna rekstursins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×