Innlent

Risastórt skemmtiferðaskip í Sundahöfn

Stærsta skemmtiferðaskip sem nokkru sinni hefur komið til Íslands lagðist að bryggju í Sundahöfn núna í morgun. Jón Örn Guðbjartsson skoðaði skipið.

Skemmtiferðaskipið Grand Princess er engin smásmíð, skipið er alls 108.806 brúttólestir og er það tuttugasta og þriðja í röðinni yfir stærstu skemmtiferðaskipin í heiminum. Farþegafjöldi er um 3.100 og áhöfn telur um ellefu hundruð manns. Á Grand Princess eru engar kojur og klefa því skipið hefur 710 herbergi sem hafa meira að segja einkasvalir auk þess sem heilt dekk hefur einungis glæsisvítur fyrir farþega.

Um borð er kapella þar sem skipstjórinn hefur í nógu að snúast við að gefa saman pör á ferðalögum um heimshöfin. Af öðrum áhugaverðum afþreyingarkostum um borð má nefna spilavíti, pútt golfvöll með níu holum, listasafn, íþróttavelli, verslanir, bari og veitingastaði þar sem reiddar eru fram kræsingar frá öllum heimshornum.

Ef menn vilja bara spóka sig á dekkinu þá er göngufærið prýðisgott, skipið er 290 metra langt eða eins og þrír knattspyrnuvellir. Það ristir 8 metra. Til samanburðar má geta þess að Queen Elisabeth sem var hér á dögunum og mörgum þótti tignarlegt, er aðeins um 70.000 brúttólestir.

Þetta mikla skip er í eigu Princess Cruises, sem er dótturfélag Carnival Cruises sem er stærsta skemmtiferðaskipafélag í heimi. Skipið var tekið í notkun 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×