Innlent

Farbannsmenn flýja á fölsuðum skilríkjum

Grunur leikur á að tveir menn grunaðir um nauðgun hafi flúið land.
Grunur leikur á að tveir menn grunaðir um nauðgun hafi flúið land.

Heimildir Vísis herma að Pólverjarnir sem grunaðir voru um nauðgun á Selfossi og settir voru í farbann í kjölfarið hafi komist úr landi undir fölsku nafni.

Þegar ferðast er innan Schengen-svæðisins þarf einungis að sýna einföld persónuskilríki á borð við ökuskírteini en ekki vegabréf. Því er talið að mennirnir hafi ferðast til lands á meginlandi Evrópu, til dæmis til Danmerkur og þaðan hafi þeir komist til sins heima, en Pólland er ekki enn orðið aðili að Schengen.

Staðfest hefur verið að einn þeirra sem grunaður var í málinu er farinn úr landi og nú leikur grunur á því að annar sé einnig flúinn.

Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, vildi ekki tjá sig um mál mannanna tveggja þegar Vísir leitaði eftir því við hann. Hann sagði hins vegar að hann og hans kollegar hafi ítrekað bent stjórnvöldum á að farbannsúrskurður sé afar veikt úrræði þegar um er að ræða fólk sem ekki hefur tengsl við landið og er hér aðeins tímabundið.

„Þegar maður er ekki með fasta vinnu hér, á ekki fasteign hér eða fjölskyldu hlýtur sú hætta að aukast að hann reyni að flýja land eigi hann dóm yfir höfði sér. Það hefur verið tregða hjá dómstólum að viðurkenna að þessi hætta sé fyrir hendi í tilfellum þar sem þetta á við," segir Jóhann.

Hann segir tvær hugmyndir til lausnar þessum vanda einkum verið ræddar. „Við teljum tvennt vera í stöðunni. Annars vegar að dómari fari fram á háa tryggingu gegn lausn úr gæsluvarðhaldi. Geti menn ekki lagt fram slíka tryggingu þá sitja þeir áfram í varðhaldi. Hins vegar hefur verið rætt um að koma á kerfi þar sem menn í farbanni bæru ökklabönd þannig að unnt sé að koma í veg fyrir að þeir fari úr landi," segir Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×