Innlent

Munum standa vörð um hagsmuni landbúnaðarins

Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir það spennandi tilhugsun að taka við báðum ráðuneytunum en hann hefur verið sjávarútvegsráðherra í nærri tvö ár.

Einar segir spennandi tíma fram undan í sjávarútvegsráðuneytinu, það þekki hann sem ráðherra þar. „Svo veit ég að það eru líka spennnandi tímar fyrir landbúnaðinn og við erum auðvitað staðráðin í því að standa vörð um hagsmuni landbúnaðarins um leið og við tryggjum það að við sjáum áframhaldandi framfarir í þeirri grein," segir Einar.

Einar segir aðspurður að það liggi ekki nákvæmlega fyrir hvernig málum verði háttað varðandi ráðuneytin, þ.e. hvort þau verði sameinuð. Til að byrja með verði hann sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Einar segir aðspurður að í stjórnarsamstarfinu verði áhersla lögð á að standa vörð um hagsmuni sjávarútvegsins en einnig sé kveðið á um að skoða skuli mál sem snúi að byggðum landsins. „Ég held líka að það sé það sem er mest knýjandi og það er eitt af því sem við munum vinda okkur í að fara betur yfir," segir Einar.

Samfylkingin hefur þrýst á um afnám tolla og viðskiptahindrana í landbúnaði og aðspurður segir Einar að það liggi fyrir í stjórnarsáttmálanum hvernig málum verði háttað. Staðinn verði vörður um hagsmuni landbúnaðarins en um leið sé stefnt að því að lækka matarverð í landinu. „Ég held að stóra málið sé það að við viljum hafa öflugan, íslenskan landbúnað og um það er enginn ágreiningur," segir Einar K. Guðfinnsson, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×