Innlent

Afgreiðslustúlkum ógnað í vopnuðu ráni

Tvær stúlkur, sextán og sautján ára, voru einar við við störf í verslun 10/11 í miðbæ Reykjavíkur rétt fyrir miðnætti í gær þegar tveir karlmenn frömdu þar vopnað rán og hótuðu þeim með skammbyssu.

Tveir karlmenn á fimmtugsaldri sem grunaðir eru um ránið voru handteknir skömmu eftir miðnætti. Vopnið er hins vegar ófundið og ekki ljóst hvort um hafi verið að ræða alvöru skammbyssu eða eftirlíkingu. Þjófarnir komust undan með talsvert af skiptimynt. En starfsfólk setur stóra seðla í sérstakan öryggiskassa við afgreiðslukassann og því höfðu þjófarnir engar stórar upphæðir með sér.

Mennirnir fóru með peningana í verslun 11-11 við Skúlagötu til að fá henni skipt í seðla og það leiddi meðal annarra vísbendinga til handtöku þeirra.

Afgreiðslustúlkurnar eru báðar undir átján ára - önnur sextán en hin sautján, en þær voru einar í versluninni þegar ránið var framið. Guðjón Karl Reynisson, framkvæmdastjóri 10-11 segir ekki venju að ráða yngra starfsfólk en átján ára en slíkt hafi verið gert á tímabili vegna erfiðleika við að fá starfsfólk. Breytingar verði þó gerðar til að tryggja að slíkt gerist ekki aftur.

Stúlkurnar fengu í dag áfallahjálp hjá sérfræðingum en Guðjón segir þær hafa brugðist hárrétt við. fyrirtækið sendi allt starfsfólk á öryggisnámskeið, meðal annars til að bregðast rétt við, í álíka aðstæðum.

Mennirnir voru yfirheyrðir af lögreglunni í dag en þeir eiga báðir afbrotaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×