Innlent

Valgerður gefur kost á sér í varaformannsembættið

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn verður í næsta mánuði. Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi í höfuðstöðvum flokksins við Hverfisgötu í morgun.

Valgerður sagði að útkoman í nýafstöðnum þingkosningum hefði verið flokknum óhagstæð. Það væri þó að baki og flokkurinn horfði nú fram á veginn. Hún hlakkaði til að takast á við aukna ábyrgð í flokknum yrði hún kosin varaformaður.

Valgerður er sú eina sem lýst hefur yfir framboði í embættið en það losnaði þegar Jón Sigurðsson sagði af sér sem formaður flokksins á miðvikudag og Guðni Ágústsson tók við af honum.

Meðal annarra sem nefndir hafa verið sem arftakar Guðna í varaformannsembætti eru Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs. Björn Ingi lýsti því þó yfir á bloggsíðu sinni á dögunum að hann myndi ekki gefa kost á sér í embættið. „ Ég er enn ungur maður og tekst á við krefjandi og fjölbreytt störf á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur og kannski mun minn tími koma í þessum efnum síðar," segir Björn Ingi á bloggsíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×