Innlent

Dreifing gesta í miðborginni bar árangur

Aðstandendur menningarnætur segja hafa skipt sköpum að dreifa dagskrá hátíðarinnar líkt og gert var í ár.
Aðstandendur menningarnætur segja hafa skipt sköpum að dreifa dagskrá hátíðarinnar líkt og gert var í ár. MYND/Hörður

„Við erum ofsalega ánægð,“ segir Sif Gunnarsdóttir, viðburðastjóri menningarnætur, um það hvernig til tókst með hátíðina í ár. „Dagskráin gekk mjög vel og við, lögreglan og aðrir öryggisaðilar erum sammála um að þessi breyting, að teygja á hátíðarsvæðinu með því að hafa tónleika á Miklatúni, geri það að verkum að það létti á miðborginni og úr varð betri hátíð fyrir alla. Og það er auðvitað gleðilegt þegar allir geta skemmt sér.“

Um þrjátíu þúsund manns voru á tónleikunum á Miklatúni þegar mest var, og eftir að dagskrá menningarnætur lauk voru um fimmtán þúsund manns í miðbænum. Að sögn lögreglu er þetta síst minna en verið hefur undanfarin ár.

Varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir nóttina hafa gengið afar vel og hafi í raun verið áþekk hefðbundinni helgarnótt. Engin stórmál hafi komið upp og engin alvarleg líkamsárás tilkynnt. Á níunda tug lögreglumanna hafi verið í bænum þegar mest var og það hafi skilað árangri.

Sif telur meira en líklegt að sama snið verði haft á að ári liðnu. „Við erum auðvitað ekkert farin að skipuleggja næstu menningarnótt, en ég geri ekki ráð fyrir öðru.“

Mikil ölvun var í bænum og ekki síst hjá þeim sem ekki höfðu aldur til. Yfir tuttugu ungmenni voru færð í sérstakt athvarf vegna ölvunar og voru sum þeirra í afar slæmu ástandi, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu. Því næst var haft samband við foreldra þeirra og þeim gert að sækja börn sín. Þetta er svipaður fjöldi og var á menningarnótt í fyrra.

Alls voru höfð afskipti af um hundrað ungmennum sem virtu ekki reglur um útivistartíma eða höfðu áfengi um hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×