Innlent

Rússar vilja sanna styrk sinn

Pútín
Pútín

Kalda stríðið tilheyrir fortíðinni, þótt Rússar haldi fast í gamla stórveldisdrauma, að sögn Þórs Whitehead sagnfræðings. Rússar sendu á dögunum fjórtán orrustuþotur til eftirlitsflugferða á Atlantshafi og yfir Kyrrahaf og er það í fyrsta skipti í fimmtán ár sem slíkar ferðir eru farnar. Rússneskar sprengjuflugvélar komu upp að austurströnd Íslands á föstudag.

Þór Whitehead

„Það er ekkert kalt stríð í uppsiglingu. Rússneska ríkið byggist ekki lengur á einhverri hugmyndafræði sem gengur út á að frelsa heiminn,“ segir Þór.

Hann bætir við að rússneska ríkið sé þó að eflast og keppi að því að ná stórveldisstöðu í heiminum. „Rússland hefur sögulega séð alltaf verið stórveldi. Þessi efling heraflans er liður í því. Stórveldi verða að geta ógnað, og Pútín vill sanna fyrir umheiminum að Rússar búi yfir slíkum mætti.“

Þór segir heræfingar Rússa einkum beinast gegn Bandaríkjunum og nágrannaríkjum Rússlands. Skilaboðin séu þau að Rússar búi enn yfir herafla sem heimurinn verði að taka tillit til. Hann telur Bandaríkjamenn ekki alltaf hafa sýnt nærgætni í samskiptum við Rússa hin síðari ár „Rússland er að rísa aftur upp á fæturna. Pútín fetar þarna í fótspor gömlu keisaranna og leggur mikla áherslu á að efla hervaldið. Sagan endurtekur sig alltaf á sinn hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×