Innlent

Bíður fyrirtöku í Hæstarétti

Maðurinn var vopnaður hafnaboltakylfu þegar hann kom inn í verslunina. Hann er ekki óvanur að beita slíku vopni.
Maðurinn var vopnaður hafnaboltakylfu þegar hann kom inn í verslunina. Hann er ekki óvanur að beita slíku vopni. MYND/heida.is

Einn mannanna þriggja sem var handtekinn í verslun á Akureyri á miðvikudag var dæmdur í tveggja ára fangelsi vegna líkamsárásar í vor þar sem fingur var klipptur af fórnarlambinu. Maðurinn áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar sem mun að líkindum taka málið fyrir í haust.

Maðurinn, sem er 27 ára gamall, kom inn í verslunina Strax á Akureyri í annarlegu ástandi og vopnaður hafnaboltakylfu. Starfsfólk hafði samband við lögreglu sem handtók manninn ásamt konu og öðrum karlmanni sem með honum voru. Í bíl þeirra fannst töluvert magn vopna, meðal annars hafnaboltakylfur og tvær loftskammbyssur, auk fíkniefna. Tvö af þremenningunum höfðu einnig verið handtekin við húsleit í bænum kvöldið áður.

Eftir skýrslutöku hjá lögreglu var fólkinu sleppt. Þá fór maðurinn sem um er rætt rakleiðis í verslunina aftur og hótaði starfsfólkinu lífláti og limlestingum.

Maðurinn á langan brotaferil að baki. Í fyrra var honum gert að sök að hafa ráðist á mann með hafnaboltakylfu og barið hann í höfðið en samverkamaður hans klippti fingur af fórnarlambinu með garðklippum. Fyrir þá líkamsárás auk annarra var maðurinn dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×