Innlent

Sárast að missa uppáhaldshænuna

Hænurnar höfðu verið bitnar og lágu á víð og dreif.
Hænurnar höfðu verið bitnar og lágu á víð og dreif. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Þeim Gíslínu Magnúsdóttur og Gísla Óskarssyni, frístundabændum í Vestmannaeyjum, var illa brugðið þegar þau fóru að athuga með búfénað sinn á fimmtudagskvöld. Hundur hafði komist í hænurnar þeirra og drepið fimm.

„Þetta var ekki skemmtileg aðkoma og sorglegt að sjá þær liggja þarna eins og hráviði út um allt,“ segir Gíslína. Fyrst rákust þau hjónin á tvær dauðar hænur í hlöðunni. Sú þriðja lá í valnum í fjárhúsinu og tvær voru utandyra.

„Það var fiður út um allt og þegar við skoðuðum hænurnar sáum við að þær höfðu verið bitnar svo það er líklegast að þarna hafi verið hundur á ferðinni,“ segir Gíslína sem saknar mest hænunnar Bellu sem var hænd að mannfólkinu. Auk hænsnanna fimm sem drápust eru þrír ungar horfnir.

Hænurnar þeirra Gíslínu og Gísla fá að ganga frjálsar um utandyra en hafa kofa til að kúra í á nóttunni. Gíslína segir að svona nokkuð hafi aldrei komið fyrir áður. „Það er mikið um hunda hér í Eyjum en flestir hafa þá í bandi,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×