Innlent

Allar stöður eru mannaðar

Edda Huld Sigurðardóttir, skólastjóri Ísaksskóla segir að kennaralið skólans sé fullmannað og að einungis nokkur pláss séu eftir fyrir nemendur í yngsta bekk skólans.
Edda Huld Sigurðardóttir, skólastjóri Ísaksskóla segir að kennaralið skólans sé fullmannað og að einungis nokkur pláss séu eftir fyrir nemendur í yngsta bekk skólans. MYND/Hörður

Kennaralið Ísaksskóla er fullmannað segir Edda Huld Sigurðardóttir skólastjóri hans. „Hér eru allar stöður mannaðar; bæði stöður kennara, skólaliða og annarra. Það er enginn hörgull á starfsfólki sem vill vinna hjá okkur,“ segir Edda Huld og bætir því við aðspurð að yfirvöld skólans hafi þurft að vísa fólki frá sem leitað hefur eftir vinnu.

Skólastjórinn segir að það sé mikið áhyggjuefni að það vanti starfsfólk í grunnskólana í landinu. „Auðvitað setur þetta foreldra í klemmu því þeir vita ekki hvað bíður barnanna þeirra. Sem betur fer er þetta ástand sem við þekkjum ekki hérna í Ísaksskóla,“ segir Edda Huld.

Ein veigamikil breyting hefur verið gerð á starfsemi Ísaksskóla frá því á síðasta ári að sögn Eddu Huldar. „Við ætlum í fyrsta skipti að kenna nemendum í fjórða bekk: níu ára börnum. Þau geta þá lokið yngsta skólastiginu hér hjá okkur. En hingað til höfum við eingöngu kennt börnum frá fimm til átta ára aldurs.“ Edda Huld segir að foreldrar barna í skólanum hafi beðið um að þessi breyting yrði gerð í mörg ár. „Nú geta börnin lokið samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði í níu ára bekk hér í skólanum og farið svo í aðra skóla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×