Innlent

Ekkert bendir til átaka

Lögreglan á Selfossi var með mikinn viðbúnað í Hveragerði í gær eftir að karlmaður á sextugsaldri fannst liggjandi í blóði sínu í heimahúsi. Frumrannsókn lögreglu bendir ekki til að átök hafi átt sér stað.

Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning klukkan rúmlega fimm í eftirmiðdaginn í gær um að maðurinn lægi í blóðinu sínu í húsinu. Lögreglumenn og sjúkraliðar fóru strax á staðinn og var maðurinn fluttur á sjúkrahús í Reykjavík. Þar lést hann í gærkvöldi.

Húsráðandi og maðurinn eru fyrrverandi sambýlisfólk og var konan færð á lögreglustöðina á Selfossi þar sem hún gisti fangageymslur í nótt. Konan var mjög ölvuð þegar lögregla færði hana af vettvangi og því reyndist ekki unnt að yfirheyra hana fyrr en í morgun. Henni var sleppt að loknum yfirheyrslum. Það var gestkomandi sem fann manninn liggjandi í blóðinu sínu en húsráðandi var þá einnig í húsinu en svaf áfengisdauða.

Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík sáu um rannsókn á vettvangi, en lögregla á Selfossi annaðist skýrslutöku af tilkynnanda og öðrum sem höfðu upplýsingar um málið. Samkvæmt frumrannsókn lögreglunnar er ekki talið að átök hafi átt sér stað en lögreglan bíður nú eftir að krufning fari fram og hægt verði að úrskurða um hvert banamein mannsins var. Niðurstöðu er þó ekki að vænta fyrr en eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×