Innlent

Nýjar túnþökur í Fossvogsdal spændar upp

Sá sem fór hér um á fimmtudag hefur ekki verið að spara hestöflin.
Sá sem fór hér um á fimmtudag hefur ekki verið að spara hestöflin. MYND/Rósa

„Við vorum að reyna að stoppa þetta með því að leggja þökur en síðan hefur greinilega einhver keyrt þarna um,“ segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, um miklar skemmdir sem unnar voru á fimmtudag á nýlögðum túnþökum í Fossvogsdal.

Túnþökurnar eru við enda götunnar Bjarmalands og eru rétt ofan við Skólagarða Reykjavíkur í dalnum. Þökurnar voru lagðar einmitt til að stemma stigu við endurteknum utanvegaakstri á þessum stað.

„Það eru alls konar aðilar, bæði verktakar og íbúar, sem hafa keyrt þarna alveg linnulaust án leyfis,“ segir Þórólfur sem kveðst ekki vita hverjir voru að verki en að hann hafi ákveðnar grunsemdir um það sem kannaðar verði betur. „Við sjáum stundum á sporunum hvert þau liggja,“ bendir garðyrkjustjórinn á.

 

Þórólfur Jónsson

Gróðurskemmdirnar eru í næsta nágrenni við göngu- og hjólreiðastíginn í Fossvogsdal. Akandi umferð skapar hættu fyrir þá sem fara um stíginn grunlausir um að þeir geti ef til vill fengið vinnuvél eða vörubíl í fangið.

„Það á auðvitað ekki að vera umferð um stígana. En því miður sýna sumir þessu virðingarleysi. Það þyrfti kannski að loka þessu betur en það þarf samt stundum að komast þarna um, til dæmis að Skólagörðunum og til að hreinsa settjarnir sem eru í dalnum,“ segir Þórólfur Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×