Innlent

Sértekjur Háskólans um 40% af tekjum

Kristín Ingólfsdóttir
Kristín Ingólfsdóttir

Sértekjur Háskóla Íslands (HÍ) jukust verulega á síðasta ári og eru nú um 40 prósent tekna skólans. Hlutfallið hefur hækkað á milli ára, en árið 2005 voru sértekjurnar 34 prósent tekna skólans. Þeta kemur fram í Árbók skólans, sem kynnt var á ársfundi á fimmtudag.

Með sértekjum er átt við tekjur aðrar en fjárveitingar frá ríkinu, segir Kristín Ingólfsdóttir rektor. Þar er einkum um að ræða tekjur sem vísindamenn afla með sókn í erlenda og innlenda samkeppnissjóði, tekjur frá Happdrætti HÍ og styrki frá atvinnulífinu.

Framlag ríkisins til HÍ var um 5 milljarðar á síðasta ári, sem er um 7 prósenta aukning milli ára. Á sama tíma hækkuðu sértekjurnar um rösklega 36 prósent og voru 3,3 milljarðar á árinu 2006. Fram kemur í tilkynningu frá HÍ að þrír fjórðu hlutar heildarútgjalda hafi runnið til kennslu og rannsókna, 17 prósent til reksturs og framkvæmda og 7 prósent hafi farið í stjórnsýsluna.

Á ársfundinum ræddi Kristín það markmið HÍ að komast í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Hún segir að þegar hafi verið stigin mikilvæg skref, ekki síst sú endurskipulagning á deildum skólans sem nú standi yfir. Einnig hafi styrkir til handa doktorsnemum margfaldast, birtingar greina í ritstýrðum vísindatímaritum hafi aukist um 17 prósent milli ára og tengsl HÍ við atvinnulífið séu sífellt að aukast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×