Erlent

Fórnarlambanna í Beslan minnst

Syrgjandi aðstandendur og íbúar í bænum Beslan í Rússlandi minntust þess í dag að þrjú ár eru frá því að gíslataka uppreinsnarmanna í barnaskóla í bænum endaði með skelfingu. Þrjú hundruð þrjátíu og tveir létu lífið, flestir þeirra börn.

Grátandi ættingjar fórnarlambanna söfnuðust saman í rústum barnaskólans í Beslan í dag. Þeir kveiktu á kertum og lögðu blóm á gólf íþróttahússins þar sem fólkinu var haldið föngum í þrjá daga.

Ættingjum fórnarlambanna rennur 1. september árið 2004 seint úr huga. Fyrsti skóladagurinn sem breyttist í martröð þegar tjetjenskir uppreisnarmenn tóku á annað þúsund börn og kennara í gíslingu. Eftir þriggja daga umsátursástand réðust rússneskar sérsveitir inn í skólann og þrjú hundruð þrjátíu og tveir létu lífið, flestir börn.

Pútín Rússlandsforseti minntist atburðarins þegar hann var viðstaddur skólasetningu í Astrakhan í dag. Fórnarlambanna var einnig minnst í Moskvu í dag þar sem ættingjar þeirra komu saman. Margir þeirra hafa sakað stjórnvöld um að leyna ýmsum upplýsingum sem varða gíslatökuna og vilja að stjórnvöld leggi spilin á borðið. Í sama streng tók Garry Kasparov leiðtogi stjórnarandstöðunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×