Lífið

Steðjað í stórlax á Kólaskaga

Hilmar Hansson sæll og glaður með einn 25 punda lax sem hann veiddi í Yokanga.
Hilmar Hansson sæll og glaður með einn 25 punda lax sem hann veiddi í Yokanga.

„Menn eru farnir að fara til Rússlands. Það eru allir komnir með upp í kok af verðinu hérna heima," segir Hilmar Hansson sem er einn þekktasti veiðimaður landsins.

 

Sturla Birgisson í Yokanga geta menn alltaf átt von á því að ná í þann stóra. Þessi lax er 38 pund.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að veiðileyfi í Langá, þar sem er staðarhaldari Ingvi Hrafn Jónsson sjálfur, hefur hækkað um hundrað prósent á fimm árum. Ingvi Hrafn sagði að meðaljóninn gæti einfaldlega gleymt því að fara í laxveiði á besta tíma. Nema í boði stórfyrirtækja. Þarna væru markaðsöflin einfaldlega að verki og lítið við því að segja. Á Reykjavíkurflugvelli í byrjun júní eru allt upp í tíu einkaþotur sem ferja hingað forfallna fluguveiðimenn og auðkýfinga.

Mikil hækkun á verði veiðileyfa er almenn - ekki bara bundin við Langá. Hilmar segir urg í mönnum sem lýsir sér í því að menn hafi verið að færa sig meira yfir í silungsveiði. Og svo þessi möguleiki sem er að fara út fyrir landsteina til veiða - til dæmis á Kólaskagann í Yokanga á sem er einhver besta stórlaxaá veraldar. Sjálfur var hann þar á ferð í fyrra ásamt Ingólfi Davíð Sigurðssyni og Guðjóni Árnasyni. Þeir veiddu 106 laxa og voru tíu prósent þeirra yfir 20 pund.

„Þarna eru menn að fá miklu betri veiði fyrir minna verð. Og það sem öllu máli skiptir - sénsinn á stóra fiskinum. Sem ekki er lengur hér á Íslandi nema í örfáum ám."



Hilmar. Þetta er algert ævintýri en menn eru fluttir til og frá veiðistað á þyrlum.

Stórlaxinn er á undanhaldi á Íslandi, hefur verið beint strik niður undanfarin ár að sögn Hilmars meðan smálaxinn er að koma upp. „Það er annað að eiga möguleika á því að fá 40 til 50 punda lax í stað tíu punda hér heima, ef þú ert heppinn."

Og stór hópur Íslenskra veiðimanna steðjar nú til Rússlands. Tugir manna eru búnir að bóka sig í veiði þar í sumar. Hilmar hefur farið í fjórgang. Hilmar er ekki alveg hlutlaus, þó engin ástæða sé til að draga orð hans í efa, en hann var mynstraður til að vera umboðsmaður Frontier, stærsta veiðiskrifstofa heims, hér á Íslandi. Og þeir bjóða upp á veiði víðsvegar um heim allan.

 

Þarna gista hinir vonglöðu veiðimenn en síðast þegar Hilmar fór veiddust 106 laxar þar af tíu prósent yfir 20 pund.

„Þetta er ótrúlegt ævintýri. Þarna ferðast menn um á þyrlum. Úti í auðninni. Engir bílvegir. Flogið á veiðistað að morgni og svo eru menn sóttir um kvöld," segir Hilmar. Verðið sem menn eru að greiða er 300 þúsund krónur fyrir viku. Sem að sögn Hilmars er sambærilegt verð og tveir dagar kosta í sæmilegri á á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.