Innlent

Stækkun álversins hafnað

Íbúar í Hafnarfirði höfnuðu í kosningum í gær tillögu um breytt deiliskipulag vegna stækkunar álvers Alcan í Straumsvík.

Gríðarlega mjótt var á mununum milli fylkinganna tveggja. Af þeim 16.647 Hafnfirðingum sem voru á kjörskrá greiddu 12.747 atkvæði, eða 76,6 prósent. Munurinn á fylkingunum tveimur var því aðeins 88 atkvæði. Nei sögðu 6.382, eða 50,3 prósent af gildum atkvæðum, og já sögðu 6.294, eða 49,3 prósent. Auðir seðlar og ógildir voru 71.

Pétur Óskarsson, talsmaður Sólar í Straumi, var ánægður með niðurstöðu kosninganna.

„Það verður óbreytt ástand í Hafnarfirði eins og áður en þessi tillaga kom til. Ég held líka að Hafnfirðingar verði fljótir að ná sér eftir þetta. Þetta var ákvörðun sem við þurftum að taka og nú liggur niðurstaðan fyrir. Við byrjum svo að lifa með þessu á morgun,“ sagði Pétur.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, var ánægður með framkvæmd kosninganna og hina miklu þátttöku íbúa bæjarins.

„Það liggur fyrir niðurstaða íbúa bæjarins sem fjölmenntu í þessa kosningu og tóku virkan þátt í að taka ákvörðun í þessu máli. Þetta var mjög glæsileg þátttaka og markar tímamót í kosningum í formi íbúalýðræðis. Munurinn er auðvitað lítill, en það er engu að síður niðurstaða sem við verðum að virða,“ sagði Lúðvík.

Bæjarstjórinn sagði lengi hafa legið ljóst fyrir að skoðanir væru skiptar. Hann teldi hina harðvítugu baráttu andstæðra fylkinga í þessu máli þó ekki eiga eftir að draga dilk á eftir sér.

„Hafnfirðingar eru skynsamt og ábyrgt fólk og við höfum gengið í gegnum ýmsa hluti í gegnum tíðina. Þessi kosning er búin að vera ströng og hörð, en við munum ná saman í þessum málum skjótt og fljótt. Það er bjart fram undan í Hafnarfirði og okkar tækifæri og möguleikar eru öll til staðar.Það er enginn heimsendir eða endalok í þessu máli. Síður en svo,“ sagði Lúðvík.

Stuðningsmenn stækkunar álversins í Straumsvík voru vonsviknir þegar lokatölur lágu fyrir í seint í gærkvöldi. Vonbrigðin leyndu sér ekki í andliti fólksins sem hafði safnast saman í Hafnarborg í Hafnarfirði. Rannveig Rist, forstjóri Alcan, ávarpaði hópinn og þakkaði fyrir þá vinnu sem starfsmenn höfðu lagt á sig í kosningabaráttunni. Hún sagði alla hafa lagt hart að sér og rekið málefnalega baráttu. Það hefði verið á brattan að sækja og mikið áunnist á stuttum tíma.

Hvorki náðist í Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, né Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúa fyrtækisins, eftir að úrslitin voru ljós og áður en blaðið fór í prentun. Í viðtali á Stöð 2 í gær sagði Rannveig þegar andstæðingar stækkunarinnar höfðu náð forskoti eftir að fyrstu tölur birtust að álverinu yrði líklega lokað ef ekki yrði af stækkun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.