Innlent

Rangar dagsetningar á matvörur

Dæmi eru um að íslensk matvælafyrirtæki hafi stundað það að dagsetja pökkunardag vöru degi á eftir raunverulegum pökkunardegi. Umhverfisstofnun segir það bannað og brjóta gegn öllum reglum um merkingu matvæla.



Fréttastofa fékk ábendingu um að verið væri að flytja kjötvörur út á land á þriðjudag síðastliðinn eða 10.apríl. Á vörunum stóð að þeim hefði verið pakkað inn 11.apríl það er að segja í gær. Vörunni var sem sagt pakkað inn degi áður en dagssetningin sagði til um. Kjötvörurnar koma frá fyrirtækinu Ferskum kjötvörum og eru seldar í verslunum Bónus. Elín Guðmundsdóttir forstöðumaður matvælasviðs Umhverfisstofnunar segir matvælafyrirtæki hafi stundað þetta um árabil en samkvæmt reglum um merkingu matvæla sé pökkunardagur sá dagur þegar vörunni er pakkað í umbúðir og fyrirtæki megi ekki hagræða því.



Elín segir orðalag Í fyrri reglugerðinni hafa verið óskýrt og matvælaframleiðendur hefðu sumir skýlt sér á bakvið það. Leifur Þórsson framkvæmdastjóri Ferskra kjötvara segir mörg matvælafyrirtæki þar á meðal Ferskar kjötvörur, dagsetja pökkunardag degi eftir að vörunni sé pakkað, og þá aðallega vörur sem fluttar séu út á land. Að sögn Leifs gerði heilbrigðiseftirlitið nýlega athugasemdir við dagsetningarnar og hefur nú verið tekið fyrir þetta hjá Ferskum kjötvörum.

Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónus verslana segir að forsvarsmenn Bónus hafi ekki vitað af þessu og reynt verði að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×