Innlent

Vilja endurgreiðslu vegna tónlistarnáms

MYND/Stefán K.

Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar í Reykjavík vill að borgin leggi fram kröfu á hendur menntamálaráðuneytinu um endurgreiðslu á kostnaði borgarinnar vegna tónlistarnáms framhaldsskólanema. Hefur flokkurinn nú lagt fram tillögu í borgarstjórn um að borgin hefji þegar í stað undirbúning kröfugerðar á hendur ráðuneytinu.

Nemendur í listnámsbrautum á framhaldsskólastigi hafa hingað til þurft að greiða skyldubundið tónlistarnám úr eigin vasa. Samkvæmt nýbirtu áliti umboðsmanns Alþingis stríðir sú gjaldtaka hins vegar gegn lögum og brýtur meðal annars gegn ákvæðum í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum um jafnan rétt til menntunar. Beinir umboðsmaður þeim tilmælum til menntamálaráðuneytisins að það breyti framkvæmd mála og geri viðeigandi ráðstafanir til að leiðrétta hlut nemenda.

Í framhaldi af þessu vill Samfylkingin láta á það reyna hvort borgin eigi kröfu á hendur ríkinu vegna þátttöku borgarinnar í rekstri tónlistarskóla á undanförnum árum. Hefur borgin meðal annars greitt skólunum styrki í hlutfalli við fjölda nemenda.  

Leggur Samfylkingin það ennfremur til að kannað verði sérstaklega hversu háar fjárhæðir borgin hefur verið að greiða beint til tónlistarskóla og hvort það sé afmarkað í þeim styrkjum hversu mikið hefur verið eyrnarmerkt kennslu- og stjórnunarkostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×