Innlent

Fokker-vél Landhelgisgæslunnar komin austur til leitar

Frá Vopnafirði.
Frá Vopnafirði.

Björgunarsveitir frá öllu Austurlandi leita sjómanns í og við Vopnafjörð en bátur hans fannst mannlaus í fjörunni í Vopnafirði seint í gærkvöldi. Um 70 manns taka nú þátt í leitinni sem staðið hefur í alla nótt. Bæði þyrla og varðskip Landhelgisgæslunnar taka einnig þátt í leitinni og þá er Fokker-vél gæslunnar einnig komin austur til leitar.

Eftirgrennslan eftir bátnum hófst í gærkvöldi eftir að Vaktstöð siglinga náði ekki við hann sambandi og fannst hann þá í fjörunni, mitt á milli Kattárvíkur og Fles út af Kollamúla í Vopnafirði en þar er fjara stórgrýtt.

Maðurinn fór til veiða á bátnum í gærmorgun frá Vopnafirði en óvíst er hvað gerðist eftir það. Fer leitin fram bæði á landi og sjó. Aukinn þungi færðist í leitina í morgun og þá hafa vaktaskipti orðið hjá björgunarsveitum og þyrluáhöfn enda hefur leitin staðið í alla nótt.

Veður var gott á þeim slóðum sem báturinn fannst í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×