Erlent

Segir Rússa vilja ítök

Jaroslaw Kaczynski, forsætisráðherra Póllands, sagðist í gær telja að andstöðu Rússa við áform Bandaríkjamanna um að koma upp búnaði fyrir eldflaugavarnakerfi sitt í Póllandi megi rekja til vona ráðamanna í Moskvu um að endurheimta fyrri ítök í landinu.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, ítrekaði í gær áhyggjur Rússa af málinu og sagði að þeir myndu bregðast við „slíkum nýjum ógnum við öryggi sitt" með viðhlítandi hætti. Lavrov tók þó fram að Rússar myndu ekki „láta draga sig inn í nýtt vígbúnaðarkapphlaup".

Bandaríkjastjórn hefur lýst áhuga á að koma upp ratsjárstöð í Tékklandi og skotstöð fyrir gagneldflaugar í Póllandi, í því skyni að efla hnattrænt eldflaugavarnakerfi sitt, ekki síst gegn meintri ógn frá Íran. Forsætisráðherrar Póllands og Tékklands sögðust í fyrradag myndu bregðast vel við þessari beiðni Bandaríkjamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×