Lífið

Finnur fyrir kaldri hönd dauðans

Þorsteinn Guðmundsson kemst aldrei hjá því að halda upp á afmælið sitt en segir það eftirminnilegasta hafa verið þegar hann varð þrítugur.
Þorsteinn Guðmundsson kemst aldrei hjá því að halda upp á afmælið sitt en segir það eftirminnilegasta hafa verið þegar hann varð þrítugur.

„Ég hef vitað af þessu í dágóðan tíma, þannig þetta kemur ekkert aftan að mér, segir Þorsteinn Guðmundsson leikari, spaugari og rithöfundur sem fagnar fertugasafmæli í dag.

Þorsteinn var við uppvask þegar Fréttablaðið truflaði hann enda von á gestum um helgina. „Þetta verður bara klassískt: opið hús fyrir fjölskylduna og svo var partí fyrir vinina á laugardagskvöld. Ég hélt partíið kvöldið fyrir afmælisdaginn þar sem ég held yfirleitt slíkar svallveislur að fólk kemst ekkert í vinnu daginn eftir.“

Þorsteinn kippir sér ekkert upp við það þótt fertugsaldurinn sé að líða undir lok en gerir sér óneitanlega grein fyrir að hann er ekki ódauðlegur. „Maður finnur óneitanlega fyrir hinni köldu hönd dauðans en ég sinni bara mínu daglega amstri, reyni að kveðja lífið á fallegan hátt með því að gera þennan heim örlítið bærilegri.“

Afmælisdagarnir eru yfirleitt í hávegum hafðir heima hjá Þorsteini enda segist hann ekki komast upp með annað. „Þegar maður á börn þýðir ekki að vera með neitt múður, þetta er miklu skemmtilegra fyrir þau en mig. Svo umgengst ég líka mikið af barnalegu fólki og enda alltaf á því að bjóða öllum heim.“

Af liðnum afmælisdögum segir Þorsteinn hinn þrítugasta standa upp úr. „Þá hélt ég líka voða grand grímuball þar sem mátti sjá mikið af frumlegum búningnum, til dæmis mætti mamma í gervi Frelsisstyttunnar. En þetta verður með hefðbundnara sniði í ár, enda ég orðinn svo þroskaður og yfirvegaður með árunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.