Innlent

Ekkert gert á strandstað fyrr en veður lægir

Frá björgunaraðgerðunum í gær.
Frá björgunaraðgerðunum í gær. MYND/Vilhelm Gunnarsson
Mengunarvarnarbúnaður er kominn á strandstaðinn í Hvalsnesi en ekkert verður að gert fyrr en veðuraðstæður leyfa og hægt verður að slaka mönnum og tækjakosti niður í skipið. Umhverfisstofnun stjórnar aðgerðum á strandstað nú þegar búið er að bjarga áhöfninni af skipinu. Að sögn Kristjáns Geirssonar, fagstjóra hjá Umhverfisstofnun, situr mannskapurinn ekki auðum höndum, enda margt hægt að gera á ströndinni til að búa í haginn í fjörunni, til að auðvelda olíubílum aðkomuna ef og þegar hægt verður að dæla olíu úr flakinu.

Kristján segir að áður en hægt verði að dæla úr olíutönkum skipsins verði að koma orku um borð í skipið, það er að segja, það verði að slaka niður ljósavél og mönnum sem geti tengt hana. Landhelgisgæslan mun meta stöðuna um hádegisbil, hvort flugfært sé fyrir slíkar aðgerðir.

Á síðu Umhverfisstofnunar er náttúrunni við strandstaðinn lýst sem viðkvæmri og verðmætri náttúru. Sérstaklega sé svæðið mikilvægt fyrir fugla sem sæki þangað næringu allan ársins hring.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×