Innlent

Gengu í hjónaband um borð í flugvél

Átta hollensk pör gengu í það heilaga um borð í flugvél Icelandair á degi elskenda, Valentínusardeginum, í gær. IcelandAir stóð fyrir samkeppni í Hollandi af því tilefni að fimmtán eru liðin frá því að IcelandAir hóf að fljúga frá Amsterdam til Íslands. Vinningshafarnir fengu síðan brúðkaup í verðlaun og upphaflega stóð til að aðeins eitt par yrði gefið saman á þennan hátt. Ásóknin var hins vegar svo mikil að sjö pörum til viðbótar var boðið að kaupa brúðkaup á sértilboði.

 

Það var svo séra Pálmi Matthíasson sem gaf brúðhjónin saman á ganginum á SagaClass skömmu eftir að vélin kom í íslenska lofthelgi. Eftir lendingu lá leið brúðhjónanna í Bláa Lónið þar sem dekrað var við þau áður en haldið var til Reykjavíkur. Þegar til höfuðborgarinnar kom beið hjónanna sérstakur brúðkaupskvöldverður á Nordica hóteli. Þar ríkti að vonum mikil gleði í gærkveldi.

Mensje og Ramses Kolfin voru svo heppin að vinna hjónavígsluna sína í samkeppni sem IcelandAir stóð fyrir í tilefni af því að 15 ár eru liðin frá því að IcelandAir hóf flug frá Amsterdam til Íslands. Ramses sagði að hún hefði tekið þátt í samkeppninni af því að henni fannst hún sniðug og þar sem hún vinnur aldrei neitt hélt hún að það væri óhætt að taka þátt. Hún sagði að það hefði verið dálítið áfall að vinna en þegar hún var búin að jafna sig ákvað hún biðja unnusta síns sem að hennar sögn sagði sem betur fer já.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×