Innlent

Diskó og pönk á Árbæjarsafninu

MYND/Vísir

Diskó og pönk er líklega ekki það sem flestum dettur í hug þegar Árbæjarsafnið er annars vegar. Gömul hús, skautbúningur og sauðskinnsskór er líklega nær lagi. Á þessu gæti orðið breyting í júní því þá verður opnuð sýning í svokölluðu Kornhúsi safnsins þar sem fjallað verður um menningu ungs fólks í Reykjavík á árunum 1975-85, og diskóið og pönkið verður haft í forgrunni.

Guðbrandur Benediktsson, deildarstjóri hjá Árbæjarsafni, segir að kannski finnist fólki það skjóta svolítið skökku við að safnið taki þetta tímabil fyrir, en bendir um leið á að Árbæjarsafn hafi áður tekið hippamenninguna og 6. áratuginn fyrir.

Guðbrandur segir að ætlunin sé að fólk taki þátt í sýningunni, ef svo má segja, því fólk fær að „fikta" og upplifa: máta föt, grípa í gítar og dansa á forláta diskógólfi.

Og safnið biðlar nú til landsmanna og auglýsir eftir munum sem fólk getur gefið því eða lánað í tengslum við sýninguna, t.d. föt og fylgihluti, skartgripi, plaköt, ljósmyndir, tímarit, hljómplötur og hljóðfæri.

Söfnunarátakið hófst í gær og tekur safnið við munum til 31. mars næstkomandi. Fyrir þá sem ekki vita þá er Árbæjarsafn við Kistuhyl í Reykjavík.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×