Erlent

Sáttasemjari S.þ. bjartsýnn á sáttaumleitanir

Terje Roed-Larsen, sáttasemjari S.þ. (t.h.), fundar þarna með Fuad Saniora, forsætisráðherra Líbanons í Beirút.
Terje Roed-Larsen, sáttasemjari S.þ. (t.h.), fundar þarna með Fuad Saniora, forsætisráðherra Líbanons í Beirút.

Sáttasemjari Sameinuðu þjóðanna er vongóður um að sáttaumleitanir milli Ísraela og Hizbollah geti leitt til vopnahlés. Ísraelsk heryfirvöld telja hins vegar að aðgerðir hersins gegn Hizbollah muni líklega taka nokkrar vikur í viðbót.

Terje Roed-Larsen, erindreki Sameinuðu þjóðanna, hefur setið við samningaborðið undanfarna daga og reynt að stilla til friðar milli stríðandi fylkinga. Hann segir sendinefnd Sameinuðu þjóðanna nú hafa skýra mynd af því hvernig hægt sé að sætta báðar hliðar.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur hins vegar varað við því að ekkert verði gefið eftir í loftárásum fyrr en kröfum Ísraela verði mætt að fullu. Ísraelsk stjórnvöld krefjast þess að sveitir Hisbollah verði afvopnaðar og að þær dragi sig til baka frá landamærunum að Ísrael. Einnig vilja þau að líbönskum hersveitum verði stillt upp við landamærin til að varna því að Hizbollah komist nógu nálægt Ísrael og ófrávíkjanlegt skilyrði er að hermönnunum tveimur sem Hizbollah rændi verði skilað. Ísraelskur ráðherra telur nú að Ísraelar muni líklega einnig þurfa að koma til móts við kröfur Hizbollah, sem snúast aðallega um lausn arabískra fanga úr ísraelskum fangelsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×