Innlent

Ekki ein báran stök sem skellur á Wilke

Ekkert lát er á hrakfallasögu flutningaskipsins Vilke, sem nú liggur bilað í Hornafjarðarhöfn eftir sólarhringa sjóvolk við landið. Erlendur tæknimaður kom til Hornafjarðar í gærkvöldi til að reyna að laga kælibúnað aðalvélarinnar í skipinu, en upphaf hrakfarar þess var fyrir viku, þegar gangtruflanir urðu í aðalvélinni, þegar skipið var statt 100 sjómílur suðaustur af landinu í aftakaveðri.

Hluti af timburfarmi þess sópaðist í hafið og tvær þyrlur gæslunnar voru sendar austur á Höfn, til móts við skipið, ef á þyrfti að halda. Það komst hinsvegar upp undir land og hraktist svo unda veðri vestu með Suðurströndinni og komst svo aftur austur undir Höfn, en þar var ákveðið að varðskip fylgdi því á ákvörðunarstað á Reyðarfirði. Eftir losun þar hélt það til Hornafjarðar til að lesta möl, en þá var skipstjórinn orðinn svo úttaugaður að nýr skipstjóri var sendur að utan í fyrrakvöld til að taka við skipstjórn.

Hann var ekki fyrr stiginn á þiljur en óveður skall á, þannig að ekki var viðlit að sigla út Hornafjarðarós. En um leið og veðrið lægði kom upp bilun í kælivatnsbúnaði fyrir aðalvélina, sem íslenskir tæknimenn gátu ekki fundið, og kom erlendur tæknimaður til Hornafjarðar í gærkvöldi til að reyna að gera skipið sjóklárt, í von um að það komist loks frá landinu. Úr því sem komið er mun Landhelgisgæslan hafa auga með skipinu uns það kemst út úr íslenskri lögsögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×