Erlent

Fyrrum sendiherra á Íslandi bendlaður við hneyksli í Las Vegas

Vestur-Íslendingurinn Sig Rogich, sem var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi 1992 og 1993, hefur dregist inn í hneykslismál sem skekur stjórnmálalíf í Las Vegas. Nýkjörinn ríkisstjóri Nevada er sakaður um kynferðislega árás á gengilbeinu fyrir utan veitingastað í borginni og síðan hafi hann og Rogich reynt að hylma yfir málið. Sigmund "Sig" Rogich, er fæddur á Íslandi árið 1944. Hann rekur eitt stærsta auglýsinga- og markaðsfyrirtæki í Nevada. Hann var einn helsti kosningaráðgjafi George Bush eldri og yngri. Hann var þó látinn fara árið 2000 þegar fjölmiðlar greindu frá því að hann hefði sótt um leyfi fyrir nektardansstað. Rogich var sendiherra hér á landi 1992 og 1993 og kom Bush eldri í heimsókn til forseta Íslands fyrr á þessu ári.

Málið sem komið hefur Rogich í kastljós bandarískra fjölmiðla síðustu vikurnar tengist umbjóðanda hans, nýkjörnum ríkisstjóra í Nevada, Jim Gibbons. Sá er sakaður um að hafa veist að þrítugri gengilbeinu utan við veitingastað í Las Vegas tæpum mánuði fyrir kosningar.

Gibbons neitar sök. Rannsóknin hefur meðal annars beinst að Rogich sem er jafnvel sagður hafa reynt að hylma yfir málið. Bandaríska dagblaðið Las Vegas Sun segir lögreglu hafa óskað eftir upplýsingum um símnotkun Gibbons og Rogichs. Ekki er talið útilokað að einhver hafi átt við upptöku úr öryggismyndavél sem týnd var í á aðra viku.

Konan kærði frambjóðandann eftir árásina en féll frá kærunni skömmu síðar. Rúmum hálfum mánuði fyrir kosningar blés hún til blaðamannafundar þar sem hún sagði útsendara Gibbons hafa þvingað sig til að falla frá kærunni. Upptökur úr öryggismyndavélinni komu í leitirnar og kæran var aftur lögð fram. Það sem flækir málið er að samkvæmt Las Vegas Sun hefur Rogich unnið sem ráðgjafi fyrir lögreglustjórann og einnig fyrirtækið sem á húsnæðið þar sem árásin er sögð hafa verið gerð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.