Innlent

Þúsundir fá leiðréttingu á vaxtabótum

Þeim sem fá vaxtabætur á þessu ári fjölgar um rúmlega fimm þúsund, nái frumvarp fjármálaráðherra um leiðréttingu vaxtabóta fram að ganga. Þá mun mikill fjöldi fólks fá hækkun á þegar greiddum vaxtabótum. Fjármálaráðherra segir rangt að ekki hafi verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, sagði í fréttum okkar í gær, að stjórnvöld hefði gengið á bak orða sinna varðandi samráð við ASÍ um leiðir til að leiðrétta greiðslur vaxtabóta. En vegna mikillar hækkunar fasteignaverðs, langt umfram verðbólgu, fengu tíu þúsund færri greiddar vaxtabætur í ágúst síðast liðnum en í fyrra. Fjármálaráðherra segir rangt að ekki hafi verið haft samráð við ASÍ.

Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að samráð hafi verið haft við Alþýðusambandið. Fulltrúar þeirra hafi verið boðaðir á fund og þeim kynnt innihald frumvarpsins. Ráðherra sagðist ekki kannast við að ASÍ hafi gert neinar stórkostlegar athugasemdir við frumvarpið.

Ef frumvarp fjármálaráðherra nær fram að ganga munu rúmlega fimm þúsund manns sem ekki fengu neinar vaxtabætur í haust, fá greiddar út vaxtabætur. Enn fleiri fá síðan leiðréttingu á sínum vaxtabótum og eiga því von á greiðslu frá ríkinu um leið og frumvarpið verður að lögum.

Árni segir ekki hægt að ganga lengra í leiðréttingunni. Það hafi verið horft til áhrifa hækkunar fasteignaverðs á skerðingu vaxtabótanna, en aðrir þætti hafi líka áhrif á lækkun vaxtabóta. Þegar horft sé til áhrifanna um allt land sé þetta niðurstaðan, en fasteignaverð hafi breyst misjafnlega eftir landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×