Innlent

Segja ríkisstjórnina klofna í afstöðu til hvalveiða

Áhöfninni á Hval níu hefur enn ekki tekist að fanga hval á þeim tæpu tveimur sólarhringum sem liðnir eru frá því skipið hélt til veiða á þriðjudagskvöld. Hart var deilt á Alþingi í morgun um ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að heimila veiðarnar og gefið í skyn að ríkisstjórnin væri klofin í málinu vegna fyrirvara umhverfisráðherra.

Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri grænna, kvað sér hljóðs um dagskrá þingsins á Alþingi í morgun, og taldi sjávarútvegsráðherra skulda Alþingi frekari skýringar á ákvörðun sinni um að hefja veiðar. Steingrímur sagði Einar K Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, ekki hafa upplýst Alþingi um að ekki væri full samstaða um málið í ríkisstjórn og rifjaði upp efasemdir sem umhverfisráðherra hefur sett fram í fjölmiðlum. Steingrímur óskaði eftir því að sjávarútvegsráðherra gerði nánar grein fyrir hver staða málsins væri í ríkisstjórn og hvort rétt væri að um það væri ekki full samstaða.

Sjávarútvegsráðherra sagði stöðu málsins mjög einfalda. Sjávarútvegsráðherra hefði vald til að gefa út veiðiheimildir á hval. Hann hefði kynnt ákvörðun sína í ríkisstjórn og ríkisstjórnin stæði að baki ákvörðun hans. Þannig að málið væri ákaflega skýrt.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði ekki annað hægt en draga þá ályktun að sjávarútvegsráðherra hefði undirbúið þetta mál á bakvið Framsóknarflokkinn og umhverfisráðherra. Það væri það alvarlega í málinu. Enn einu sinni væri verið að niðurlægja Framsóknarflokkinn og beygja hann í duftið.

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, varði hins vegar ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Hann hvatti þingheim til að verja hagsmuni Íslands. Það væri réttur Íslendinga að veiða hval. Hann hafi verið mikilvæg afurð í áratugi. Íslendingar ættu ekki að láta veikja sig í þeirri orrustu. "Við skulum standa saman, við skulum eiga eina þjóðarsál," sagði Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×