Innlent

Segja meiriháttar málþóf í uppsiglingu um RÚV-frumvarp

Stjórnarandstæðingar voru sakaðir á Alþingi í dag um að vera að munstra sig í meiriháttar málþóf um frumvarpið um Ríkisútvarpið.

Áður en menntamálaráðherra komst að til að mæla fyrir frumvarpinu um Ríkisútvarpið stigu þingmenn stjórnarandstöðunnar sjö sinnum í pontu til að ræða um fundarstjórn forseta. Gerðu þeir einkum athugasemd við að fjölmiðlafrumvarpið skyldi ekki vera rætt á undan en einnig var þeim lítt skemmt við þau áform þingforseta að halda kvöldfund svo ljúka mætti fyrstu umræðu og koma málinu í þingnefnd. Þingflokksformaður sjálfstæðismanna, Arnbjörg Sveinsdóttir, taldi þetta upphaf að málþófi og fleiri stjórnarþingmenn voru sama sinnis. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar Alþingis, sagði það rétt hjá Arnbjörgu að stjórnarandstaðan væri að munstra sig í meiriháttar málþóf til að reyna að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi. Formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, taldi Arnbjörgu Sveinsdóttur hafa brotið blað í þingsögunni með því að saka hann um málþóf áður en umræða hæfist um málið. Eftir að karpað hafði verið í hartnær klukkustund um fundarstjórn forseta komst menntamálaráðhera loks að til að mæla fyrir frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×