Innlent

Æfðu árás á vígi hryðjuverkamanna

Frá heræfingu í morgun
Frá heræfingu í morgun MYND/NFS

Sérsveit ríkislögreglustjóra og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar æfðu með Bandaríkjaher í morgun árás á vígi hryðjuverkamanna í Hvalfirði. Þyrla frá flumóðurskipinu WASP, sem liggur í Sundahöfn, flaug með vopnaða íslenska sérsveitarmenn á vettvang í gömlu olíustöðinni.

Æfingin var ekki síst til að Íslendingar fengju að kynnast öflugustu þyrlu bandaríkjahers, MH 53 Seadragon, en hún flutti bæði vopnaða sérsveitarmenn ríkislögreglu og sprengjusveitarmenn Landhelgisgæslunnar. Æfingin hófst um borð í flugmóðurskipinu WASP í Sundahöfn en þaðan var flogið upp í Hvalfjörð. Þar var norðaustan hvassviðri og hvítfyssandi sjór en veðrið virtist engin áhrif hafa á flughæfni þyrlunnar. Í gömlu olíustöðinni höfðu menn ímyndað sér að hryðjuverkamenn væru búnir að koma sér upp aðstöðu til sprenguefnagerðar og æfingin í dag fólst í því að uppræta hryðjuverkjahreiðrið. Sérsveitarmennirir, vopnaðir vélbyssum og skammbyssum, læddust að en sáu að hryðjuverkamennirnir höfðu komið fyrir sprengjugildru við innganginn sem fyrst þurfti að eyða. Síðan var kastað inn sprengjum og loks ruddust sérsveitarmennirnir inn og yfirbuguðu hryðjuverkamennina. Að því búnu var flogið með sérsveitarmennina til baka í flugmóðurskipið sem og íslenska fjölmiðlamenn, sem fylgdust með. Sýnt verður frá æfingunni í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×