Innlent

Færeyingar vilja kaupa raforku frá Íslandi um sæstreng

Viðræður eru hafnar milli íslenskra og færeyskra stjórnvalda um hvort fýsilegt sé að selja raforku um sæstreng frá Íslandi til Færeyja.

Lögmaður Færeyja bar þessa ósk upp við Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, þegar Halldór var í heimsókn í Færeyjum í byrjun aprílmánaðar í vor. Færeyingar framleiða 55 prósent af raforku sinni með olíu, um 40 prósent með vatnsorku en um 5 prósent með vindorku. Auk þess kynda þeir hús sín með olíu.

Á Orkuþingi í Reykjavík í dag gerði Sigurð í Jákupsstovu, orkumálastjóri Færeyja, grein fyrir þessum viðræðum en þegar hafa tveir fundir verið haldnir. Sigurð segir að verið sé að kanna hvort þetta sé gerlegt; fjárhagslega, tæknilega og lagalega. Menn telji að það sé hægt tæknilega og lagalega. Spurningin sé hvort það sé fjárhagslega hagkvæmt og raunhæft að kaupa raforku frá Íslandi en mikill stofnkostnaður fylgi sæstreng.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×