Innlent

Bækur, vefsíður og spjall í tilefni af tungumáladeginum

Evrópski tungumáladagurinn er haldinn hátíðlegur í dag víða í skólum landsins. Sérstök hátíðardagskrá verður víða á vegum tungumálastofnana og í skólum landsins.

Vigdís Finnbogadóttir, velgerðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna fyrir tungumál, setur sérstaka hátíðardagskrá í Háskóla Íslands í dag. Þar er meðal annars fagnað útgáfu fjölmála ljóðabókar sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur gefur út. Þetta er ljóðabókin “Zwischen Winter und Winter”  eftir þýska ljóðskáldið Manfred Peter Hein. Auk ljóðanna á frummálinu hefur bókin að geyma þýðingar á ljóðunum á íslensku, ensku og dönsku. Ljóðskáldið og þýðendurnir ræða síðan um ljóðformið og gildi þýðinga í Hátíðarsalnum.

Einnig afhenda fulltrúar verkefnisins Bækur og Móðurmál heimasíðu á 8 tungumálum þar sem safnað hefur verið saman vefslóðum með námsgögnum og námsaðstoð fyrir grunnskólanema. Verkefnið Bækur og móðurmál réði átta einstaklinga til að safna saman þessum vefslóðum, á pólsku, litháísku, taílensku, rússnesku, tagalóg, albönsku, serbnesku og spænsku. Það er deildarstjóri móttökudeildar nýbúa í Breiðholtsskóla sem tekur við vefslóðunum.

Í Háskólanum í Reykjavík getur almenningur sest inn í hádeginu og hitt fyrir skiptinema sem fræðir fólk um tungumálið sitt, land, þjóð og menningu. Einnig er boðið upp á að kynnast mismunandi menningu í gegnum málshætti og mataruppskriftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×