Innlent

Enginn handtekinn fyrr en tölvurnar hafa verið rannsakaðar

Lögreglumenn í Reykjavík, Kópavogi, á Selfossi og Ísafirði gerðu í morgun húsleitir á sama tíma vegna gruns um að niðurhal á barnaklámi af netinu. Aðgerðirnar voru skipulagðar eftir vísbendingu frá Interpol. Enginn verður handtekinn fyrr en tölvurnar hafa verið rannsakaðar af tæknideildum á hverjum stað fyrir sig.

Það var rúmlega tíu í morgun sem lögregla á fjórum stöðum á landinu réðist inn í hús og gerði upptækar tölvur eftir vísbendingar frá alþjóðalögreglunni Interpol um að þessar tölvur hefðu verið notaðar til að hlaða niður barnaklámi af internetinu. Lögreglan á Selfossi réðst inn í eitt hús í Árnessýslu, sömuleiðis rannsökuðu lögreglan í Kópavogi og á Ísafirði hvor sitt húsið. Tvö hús voru rannsökuð í Reykjavík en á öllum stöðunum var hald lagt á tölvur, fleiri en eina á hverjum stað.

Tæknideild lögreglunnar á hverjum stað tekur nú til við að rannsaka tölvurnar en enginn verður handtekinn vegna málsins fyrr en komið er í ljós hvort og hversu mikið af ólöglegu efni finnst á tölvunum. Einn er grunaður í Árnessýslu, einn í Kópavogi og fleiri en tveir í Reykjavík. Ekki fannst annað efni í húsunum sem tengdist barnaklámi.

Hámarksrefsing við vörslu barnakláms er tveggja ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×