Erlent

Síversnandi ástand hjá hálfri milljón flóttamanna í Líbanon

Gert að sárum fórnarlamba sprengjuárása í Líbanon.
Gert að sárum fórnarlamba sprengjuárása í Líbanon. MYND/AP

Hjálparsamtök vara við neyðarástandi meðal flóttamanna sem hafa hrakist frá heimilum sínum í Líbanon. Erfitt reynist að koma hjálpargögnum til þeirra þar sem sprengingar Ísraela hafa nær eyðilagt samgöngukerfið í Suður-Líbanon. Hálf milljón manna hefur flúið heimili sín vegna átakanna í Líbanon undanfarna daga. Margir þeirra hafast nú við í neyðarskýlum, við misgóðan aðbúnað.

Hjálparsamtök segja ástandið fara versnandi með hverri klukkustundinni því illa gengur að færa mat og aðrar nauðsynjavörur til fólksins sem ekki hefur komist frá Suður-Líbanon.

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Louise Arbor, segir árásir á almenna borgara í Líbanon, Palestínu og Ísrael hugsanlega geta flokkast sem stríðsglæpir. Hún minnti á að allir aðilar verði alltaf að gæta að hlutfallsreglunni: að bregðast ekki við með árásum sem eru mun harðari en upprunalega ástæðan gefur tilefni til. 300 Líbanar hafa fallið í loftárásum Ísraela og átökum við ísraelska hermenn á átta dögum, langflestir þeirra óbreyttir borgarar og 100 hafa fallið í valinn á Gaza og á Vesturbakka Jórdanar frá því Ísraelar hófu árásir þar í byrjun júlí.

Gærdagurinn var sá alblóðugasti undanfarinna átta daga sem liðnir eru frá því árásirnar hófust. 64 féllu í valinn í Líbanon í gær, allir utan einn voru saklausir borgarar. Fjórir féllu í Ísrael á sama tíma. Ísraelar gerðu síðan 80 loftárásir í nótt og í morgun en mannfall í þeim árásum liggur ekki fyrir. Ísraelskar herflugvélar slepptu 23 tonnum af sprengiefni á bragga suður af Beirút í gærkvöldi vegna gruns um að þar hefðust við hátt settir menn innan Hisbollah. Skæruliðasamtökin neita því að nokkur hafi særst eða fallið í sprengingunni en orðrómur er samt á kreiki að Nasrallah, leiðtogi Hisbollah, hafi verið í húsinu þegar sprengjurnar féllu á það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×