Erlent

Leiðtogar G8 skella skuldinni á öfgasinnuð samtök

Leiðtogar iðnríkjanna sestir að fundarborðinu.
Leiðtogar iðnríkjanna sestir að fundarborðinu. MYND/AP
Leiðtogar átta helstu iðnríkja heims kenna öfgasinnuðum samtökum um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir funda í dag með leiðtogum fimm þróunarríkja um við þróunarríkin á síðasta degi leiðtogafundarins.

Eftir mikið japl jaml og fuður urðu leiðtogarnir loks ásáttir um að kenna öfgasinnuðum samtökum, þar á meðal Hamas og Hisbollah, um stríðsástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir hvöttu um leið Ísraela til að láta af loftárásum sínum og einnig skæruliðasamtök til að hætta sprengjuárásum. Bush Bandaríkjaforseti hefur sagt Ísraela eiga fullan rétt á verja hendur sínar gegn skæruliðasamtökum en Jaques Chirac sagði hins vegar að viðbrögð og loftárásir Ísraela væru algjörlega úr samhengi við tilefnið: að Hisbollah hefði rænt tveimur ísraelskum hermönnum á aðfaranótt miðvikudagsins í síðustu viku.

Síðasti dagur viðræðnanna er í dag og verður dagurinn notaður til viðræðna við leiðtoga fimm þróunarlanda: Kína, Indlands, Brasilíu, Mexíkó og Suður-Afríku. Framkvæmdastjóri alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun einnig sitja fundinn sem mun fjalla um afnám viðskiptahindrana. Þar benda Bandaríkin og Evrópusambandsríkin hvert á annað: Bandaríkjamenn segja að verndartollar Evrópusambandsins á landbúnaðarafurðum verði að lækka umfram núverandi áætlanir ESB en Evrópusambandslöndin benda á móti á að bandarískur landbúnaður sé úr hófi fram ríkisstyrktur.

Iðnríkin vilja einnig fá þróunarlöndin til að opna markaði sína í ríkari mæli fyrir iðnaðarafurðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×