Innlent

Innflytjendaflokkur stofnaður á næstu dögum

Paul F. Nikolov, verðandi stjórnmálamaður
Paul F. Nikolov, verðandi stjórnmálamaður MYND/Stefán Karlsson

Innflytjendaflokkurinn, stjórnmálaflokkur með áherslur á málefni innflytjenda, verður stofnaður á næstu dögum. Stofnandi flokksins segir að tími sé kominn til að raddir innflytjenda heyrist í þjóðfélaginu. Paul F. Nikolov, blaðamaður á Reykjavík Grapevine, skrifaði pistil í nýjasta tölublaði blaðsins sem kom út á föstudaginn var. Hann segir að niðurstöður sveitastjórnarkosninganna hafi verið mörgum vonbrigði. Þeir flokkar sem buðu fram hafi lagt litla áherslu á málefni innflytjenda.

Fjöldi manns hefur nú þegar haft samband við Nikolov vegna fyrirhugaðs flokks, Íslendingar jafnt sem innflytjendur. Hann safnar nú stuðningsmönnum til að geta stofnað flokkinn og stefnir á að skrá hann á næstu dögum. Ef allt gengur að óskum mun flokkurinn bjóða fram til sveitastjórnarkosninganna árið 2010 og hugsanlega alþingiskosninganna 2011.

Nikolov segir að áherslur flokksins verði fyrst og fremst á aukna íslenskukennslu fyrir innflytjendur, aukið trúfrelsi og byggingu mosku og réttrúnaðarkirkju á Íslandi. Hann segir að flokkurinn muni reyna að hvetja innflytjendur til aukinnar þátttöku í íslensku þjóðfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×